Bókasafn Árborgar, Selfossi á rætur að rekja til tombólu sem haldin var í Tryggvaskála veturinn 1909. Það var Ungmennafélag Sandvíkurhrepps sem efndi til tombólunnar í því skyni að safna fé svo unnt væri að stofna lestrarfélag. Safnið fékk fyrst inni Litlu-Sandvík  og fyrsti bókavörðurinn var Steindór Hannesson vinnumaður í Litlu-Sandvík. Fljótlega eftir  stofnun Ungmennafélagsins kom einhver deyfð yfir það en lestrarfélagið reyndist lífsseigara en móðurfélagið. Fyrsti skápur Lestrarfélagsins var smíðaður árið 1912 fyrir styrk frá Ungmennafélaginu að upphæð 10 krónur, þessi skápur er enn til og varðveittur í safninu. Safnið flytur í félagshús Ungmennfélagsins í Haga 1916. Ungmennafélagið líður undir lok um 1929 en Lestrarfélagið dafnaði þótt ungmennafélagið hætti störfum. Safnvarslan var nú um stuttan tíma í höndum dætra Guðlaugs Þórðarsonar veitingamanns í Tryggvaskála á Selfossi. Sandvíkurhreppur tekur formlega við safninu árið 1934 og er þá nefnt Bókasafn Selfos. Sigurður Þ. Eyjólfsson skólastjóri tekur við safnvörslu  og safnið staðsett í áhaldageymslu hins nýbyggða skóla á suðurbakka Ölfusár. Þegar útlán hófust voru samtals 153 bindi í safninu.

Að tilstuðlan Héraðssambandi Skarphéðins er Héraðsbókasafn Suðurlands stofnað árið 1939 með aðsetur á Selfossi. Þá voru safninu fyrst tryggðar lágmarkstekjur á ári, stofngjafir voru frá Mjólkurbúi Flóamanna kr. 500, frá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi kr. 250 og frá Kennarafélagi Árnesinga kr. 100. Frá Ríkissjóði kom kr. 1000 á ári þannig má sjá að stofngjafir voru glæsilegar. Á þessum árum eiga þrír aðilar hlutdeild í safninu: Árnes-og Rangárvallasýslur og Héraðssambandið Skarphéðinn.

Árið 1956 var nafninu breytt í Héraðsbókasafn Árnessýslu vegna nýrra laga um almenningsbókasöfn. Þar kveður á um að sérstakt héraðsbókasafn skuli vera í hverri sýslu landsins. Þar með skildu leiðir Árnesinga og Rangæinga í bókasafnamálum. Allur bókakostur rennur inn í hið nýstofnaða Héraðsbókasafn með samþykki aðila. Þá taka við rekstri safnsins Selfosshreppur og Árnessýsla.

Þegar Héraðsbókasafnið tekur til starfa er ekkert hentugt húsnæði til en hinn nýkjörni bókavörður Björn Sigurbjarnarson tók það inn á heimili sitt að Fagurgerði 4. Þar var það starfrækt frá 1939-1942. Þá treysti Björn sér ekki til að hýsa svo erilsaman gest lengur enda nýkjörin oddviti. Þá var safnið flutt til Sigurðar Eyjólfssonar að Fagurgerði 8 (Skeljafelli) og geymt þar í nokkur ár, þá féllu útlán niður um tíma.

Síðan flytur safnið í nýbyggðan barnaskóla við Tryggvagötu 1947. Sigurður Eyjólfsson er ráðinn bókavörður  1949 og var það næstu árin. Sumarið 1959 var bókasafninu sagt upp húsnæðinu í barnaskólanum sem gert var að kennslustofum. Þá var bókasafnið flutt í Hreppshúsið að Eyrarvegi 8 og komið þar fyrir í tveimur litlum stofum á efri hæð. 1964 flytur það í hið nýbyggða Safnahús sýslunnar að Tryggvagötu 23. Fékk bókasafnið neðri hæðina til afnota sem nam um 250 m2

Þegar Selfoss fékk kaupstaðarréttindi árið 1978 breyttist nafn bókasafnsins í Bæjar-og héraðsbókasafnið á Selfossi. Hin rausnarlega gjöf þeirra hjóna sr. Eiríks J. Eiríkssonar og Sigríðar Kristínar Jónsdóttur var gefin í október 1984, þá var gerður 10 ára samningur við rekstaraðila að taka við safninu. Árið 1991, þann 8. september við aldarafmæli Ölfusárbrúar, opnaði safnið formlega í núverandi húsnæði að Austurvegi 2, þá var loksins hægt að taka við þessari rausnarlegu gjöf sem nemur um 30.000 bindi.
Haustið 2008 dregur Héraðsnefnd Árnesinga  sig úr rekstri safnsins og síðan rekur Sveitarfélagið Árborg bókasafnið sem fær nýtt nafn í byrjun árs 2009 og heitir síðan Bókasafn Árborgar.

.

Skildu eftir svar