Ísabella Leifsdóttir opnaði nýja myndlistarsýningu í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi þann 9. ágúst og stendur sýningin til 8. september.
Endurspeglun er sýning á speglum sem eru skreyttir með plastdóti sem var á leið í endurvinnslu. Dóti sem segir ýmislegt um hvað við veljum fyrir framtíðarkynslóðirnar. Speglarnir eru fallegir og eigulegir munir enda tilgangurinn að búa til verk sem fólk vill ekki henda í ruslið heldur halda upp á til að fegra heimilið sitt og til að minna sig á að velja vandlega í hvert sinn sem kortið er rétt fram til að kaupa eitthvað.
Þetta er sjötta einkasýning Ísabellu og eru tvær aðrar fyrirhugaðar næstkomandi vetur, í Borgarbókasafninu og Safnahúsi Skagfirðinga.
Listmenntun Ísabellu snýr að tónlist, hún er með framhaldsháskólagráðu í óperu, en hefur stundað myndlist frá barnæsku þegar hún gekk í Myndlistarskóla Kópavogs.
Styrktaraðilar eru Uppbyggingarsjóður Suðurlands og Góði hirðirinn