Myndir Eyvindar Erlendssonar í Listagjá

Sýning með verkum Eyvindar Erlendssonar hefur verið opnuð í Listagjánni. Eyvindur er fæddur í Grindavík 1937 en ólst upp frá sjö ára aldri í Dalsmynni í Biskupstungum. Hann var í héraðsskóla og menntaskóla að Laugarvatni, en lærði húsgagnasmíði  á verkstæði  Kaupfélags Árnesinga. Hann vann við þá iðn hjá Kristjáni Siggeirssyni  og síðan sem leikmyndasmiður á verkstæði Þjóðleikhússins. Eyvindur stundaði nám við leiklistarskóla Þjóðleikhússins og fór strax eftir það að setja upp sýningar víðsvegar. Hann lagði stund á nám í leikstjórn í Moskvu í 4 ár. Eyvindur hefur helgað líf sitt listum  og komið að myndlist, tónlist og ritlist þó leiklistin hafi verið hans aðalatvinna ásamt því að reka bú í nokkur ár og stunda smíðar. Á sýningunni í Listagjánni gefur að líta sýnishorn 60 ára ferils í myndlist. Sýningin stendur til 16. mars.